Nýjustu fréttir

Upplýsingar til foreldra barna í leikskólum SFS

Við hvetjum foreldra að leyfa börnum að mæta í leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili til að það myndist stöðugleiki fyrir börnin. Skólastarf hefur nú hafist að nýju eftir páskafrí samkvæmt skipulagi hvers skóla og verður með þeim hætti þar til hefðbundið skólastarf hefst 4. maí.

Af hverju eru leikskólar, grunnskólar og frístundamiðstöðvar opnar?
Börn og ungmenni eru ekki skilgreind í áhættuhópi vegna smits og lítið er um alvarleg veikindi af völdum veirunnar meðal þeirra. Ef börn eða ungmenni smitast fá flest þeirra væg einkenni. Eldri nemendur eru einnig í betri aðstöðu til þess að sinna fjarnámi en yngri börn. Skólarnir eru samfélagslega mikilvægir og brýnt að nemendur hafi tækifæri til þess að sinna sínu námi, þó námsfyrirkomulagið kunni að breytast tímabundið.

Grunnskólar mega hafa kennslu í skólabyggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag.

Leikskólar mega hafa opið og halda uppi leikskólastarfi ef þeir tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa leikskólabyggingarnar eftir hvern dag.

Hvað munu takmarkanir á skólastarfi vara lengi?
Samkomubann er í gildi til 4. maí en eftir það mun hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum hefjast á ný. Frekari upplýsingar um það munu koma þegar nær dregur.

Geta foreldrar sem vilja haft börnin sín heima?
Hvatt er til þess að heilbrigð börn sæki sinn skóla. Ef barn sýnir engin merki um veikindi ætti viðkomandi að mæta í leikskóla, grunnskóla og/eða frístundaheimili. Engin breyting hefur verið gerð á skólaskyldu barna á grunnskólaaldri. Hins vegar er brýnt að börn mæti ekki í skólann ef þau sýna einkenni sem svipar til einkenna COVID-19, s.s. hita, hósta, bein- og vöðvaverki eða þreytu. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um lykilskilaboð og forvarnaraðgerðir vegna COVID-19 í skólum. Þar eru settar fram skýrar upplýsingar um öruggar aðgerðir sem tengjast því að koma í veg fyrir smit, greina það snemma og verjast COVID-19 í skólum og öðrum menntastofnunum.

Hvar fæ ég upplýsingar?
- Allar almennar upplýsingar er að finna á heimasíðum leiksskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva.

- Aðrar upplýsingar: https://www.covid.is.

- Viðbrögð á Íslandi: https://www.covid.is/flokkar/vidbrogd-a-islandi

Lesa >>


Námsferð aflýst og sumarfrí

Sólborg hefur ákveðið að aflýsa námsferð til Brighton í Englandi. Hún átti að vera farinn 22. apríl og vera til 26. apríl. Sólborg verður því opinn börnum og foreldrum miðvikudaginn 22. apríl og föstudaginn 24. apríl nk.

Vegna ferðarinnar voru fyrirhugaðir tveir skipulagsdagar, sem hafa því verið færðir yfir á næsta skólaár. Nánari útfærsla á þeim kemur síðar. Næsti skipulagsdagur í Sólborg verður mánudaginn 8. júní nk.

 

Sumarlokun Sólborgar mun standa yfir frá og með miðvikudeginum 8. júlí og til og með miðvikudagsins 5. ágúst. Leikskólinn opnar aftur fimmtudaginn 6. ágúst. 

Lesa >>


Fyrirkomulag Sólborgar vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Í næstu viku eru 5 dagar og því einn hópur sem mætir einn dag umfram annan hópinn. Við sjáum fyrir okkur að í vikunni á eftir það verður það hinn hópurinn sem fái þennan aukadag. Þið getið gert ráð fyrir að það verði miðvikudagar sem rúlli á milli hópa eftir vikum, þó við viljum ekki slá því á fast, miðað við að ástandið í þjóðfélaginu geti breyst með skömmum fyrirvara.

Sólborg hefur unnið eftir þeim tilmælum að ákveðinn foreldrahópur fái forgang vegna mikilvægi vinnustaðar þeirra skv. Almannavörnum, eins og þið sáuð í pósti þann 14. mars um neyðarþjónustu. Við höfum ekki þurft að láta það koma niður á þeim foreldrum sem ekki sinna þessari skilgreindri neyðarþjónustu.

Áfram er unnið eftir þeim skorðum sem við nefndum áður. Ykkur hefur gengið vel að aðlagast kveðjustundum í forstofunni og bjöllur deildanna hafa hjálpað til við það. Á útisvæðum vinnum við eftir þeim tilmælum að reyna eins og kostur er á að börnin leiki með sinni deild. Þetta leiðir til þess að ekki verður lokað á rauða svæðinu eins og við höfum vanist. Þið hafið það í huga þegar þið sækið.

Takk fyrir hvað þið hafið verið samvinnuþýð á þessum síbreytilegum tímum, það hefur hjálpað okkur mikið með þær ráðstafanir sem við höfum þurft að grípa til.

Lesa >>


Verklag leikskóla á grunni takmarkana skólastarfs vegna farsóttar

Í þeim samfélagslegu aðstæðum sem nú eru leggur Samband íslenskra sveitarfélaga höfuðáherslu á að fylgja í einu og öllu fyrirmælum opinberra aðila sem stýra aðgerðum til varnar útbreiðslu COVID veirunnar. Föstudaginn 13. mars 2020 settu sóttvarnarlæknir, fulltrúi almannavarna, forsætisráðherra, menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra fram tilmæli um skipulag skólahalds næsta mánuðinn vegna stöðunnar.

Sveitarfélögin í landinu sameinast um að samræma aðgerðir í skipulagi skóla- og frístundastarfs fyrir þetta tímabil eins og kostur er. Skólahald mun fara fram en með takmörkunum. Skólarnir sinna börnum og unglingum sem eru viðkvæmustu hópar samfélagsins og því þarf að huga vel að virkni þeirra og vellíðan. Þá ber að hlúa að starfsfólki sem starfar innan skóla- og frístundastarfs en þessi hópur sinnir mikilvægum störfum í í samfélaginu.

Samband íslenskra sveitarfélaga fylgist vel með þeim breytingum sem kunna að verða á takmörkunum á skólahaldi. Við tökum höndum saman svo að allt starf geti farið fram af yfirvegun og æðruleysi. Sveitarfélögin færa þakkir til alls þess fjölda fagfólks á vettvangi sem tekur að sér skipulagningu skólastarfsins næstu vikur við fordæmalausar aðstæður.

Leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitafélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Umfang leikskólastarfs:

  • Opið frá 8:00 – 16:15
  • Tekið verður á móti sem nemur helmingi barna á hverri deild daglega.
  • Börn starfsmanna leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs hafa forgang að leikskóladvöl og foreldra sem sinna neyðarþjónustu. Gera má ráð fyrri að allir foreldrar þurfi að taka á sig einhverja skerðingu.
  • Starfsfólk leitast við að vinna með börnin í litlum hópum ca 4-6 börn í hópi.
  • Leitast verður við að nýta allt húsnæði leikskólans til að dreifa úr hópnum eins og kostur er.
  • Leikskólum verður lokað kl. 16:15 og tíminn eftir það nýttur til að ganga frá eftir daginn og undirbúa næsta dag.
  • Til skoðunar er að foreldrar sem kjósa að halda börnum sínum heima fái niðurfellingu á gjöldum þann tíma.
  • Komi til mikillar mannfæðar þannig að ekki verði hægt að vinna með börnin í u.þ.b. 4-6 barnahópum verður unnið eftir fáliðunarferli til viðbótar við ofangreint.

Lesa >>


Skipulagsdagur 16. mars 2020

Foreldrar og forráðamenn athugið.

Það verður skipulagsdagur í Sólborg mánudaginn 16. mars nk. Þessi ráðstöfun er í tengslum við ákvörðun um samkomubann sem tekin var fyrr í dag af ríkisstjórn Íslands.

Það er verið að útfæra nánari útfærslu með sveitarfélögunum, hvernig verður staðið að samkomubanninu á vegum skóla- og frístundarsviðs. Við munum vita meira þegar líður á helgina. Þið foreldrar verðið látnir vita við fyrsta kost.

Það sem við vitum núna; skipulagsdagur á mánudaginn 16. mars og leikskólinn Sólborg því lokaður þann dag.

Góða helgi.

F.h. Sólborgar,

Stjórnendur

Lesa >>

Skoða fréttasafn